Luigi Gubitosi, forstjóri Telecom Italia hætti störfum fyrir helgi í kjölfar deilna við Vivendi, stærsta hluthafa Telecom Italia, á stjórnarfundi síðastliðið föstudagskvöld. Novator, fjárfestingafélag Björgólfs Thors Björgólfssonar, á tæplega 3% hlut í félaginu sem metinn er á tæplega 50 milljarða íslenskra króna miðað við yfirtökutilboðið sem er á genginu 0,505 evrurmá hlut.

Vivendi, sem á 24% hlut í Telecom Italia, hafði áður gefið í skyn að Gubitosi bæri ábyrgð á slæmu gengi fjarskiptafélagsins að undanförnu. Vivendi taldi einnig að yfirtökutilboð KKR í Telecom Italia, sem Viðskiptablaðið greindi frá á dögunum hafi verið gert með hjálp Gubitosi án vitundar hluthafa. Auk þess hafi Vivendi fundist tilboðið vera of lágt. Þetta kemur fram í grein Financial Times . Uppsögn forstjórans átti sér stað viku eftir yfirtökutilboðið.

Frá því að Gubitosi tók við félaginu árið 2018, og þar til hann sagði upp, hafði gengi hlutabréfa í Telecom Italia fallið um 40%.

Samkvæmt umfjöllun erlendra miðla fjárfesti Novator fyrst í Telecom Italia árið 2017 og stutti þá vogunarsjóðinn Elliott í breytingum á skipulagi félagisns. Hlutur Novator í Telecom Italia hækkaði í tæplega 3% í mars árið 2020. Ekki liggur fyrir hvað Novator hefur greitt fyrir hlutinn. Gengi bréfa Telecom Italia stóð í ríflega 0,7 evrum á hlut í ársbyrjun 2018 ig fær hæst í 0,88 evrur á hlut það ár en féll lægst niður í 0,34 evrur í mars 2020.

Yfirtakan velti á ýmsu

Ýmsar hindranir standa í vegi fyrir yfirtöku KKR á Telecom Italia. Óvissa ríkir um það hvort ítölsk stjórnvöld, sem eiga 10% hlut í fjarskiptafélaginu, samþykki yfirtökutilboðið. Mario Draghi, forsætisráðherra Ítalíu, hefur ekki skipt sér mikið af fyrirhugaðri sölu en skiptar skoðanir eru um söluna í ríkisstjórn Draghi, samkvæmt umfjöllun Financial Times .

Telecom Italia er jafnframt stórt félag og yfirtöku stórs félags fylgir viss áhætta, en yfirtakan verður ein stærsta framtaksfjárfesting evrópskrar viðskiptasögu ef hún fær samþykki stjórnvalda og hluthafa. Áhættan í tilboðinu felst ekki síður í því hvað gengi félagsins hefur verið langt undir væntingum á undanförnum árum.

Tilboð KKR hefur vakið athygli annarra fjárfestingarfélaga á fjarskiptafélaginu og virðist samkeppni vera að myndast um yfirtöku. Fjölmörg félög hafa auk þess reynt að yfirtaka fjarskiptafélagið á undanförnum tveim áratugum, Vivendi þar á meðal.