Vopnaframleiðendum hefur gengið vel undanfarin ár þrátt fyrir örðugleika á mörgum öðrum sviðum efnahagslífsins. Á síðustu fimm árum hafa hlutabréf Lockheed Martin, stærsta hergagnaframleiðanda heims, hækkað í verði um 200 prósent og bréf Ruger, stærsta skotvopnaframleiðanda Bandaríkjanna, um 180 prósent. Til samanburðar hefur bandaríska S&P 500 vísitalan aðeins hækkað um 56% á sama tímabili.

Hernaðarútgjöld á heimsvísu hafa haldist tiltölulega stöðug undanfarin ár. Útgjöld Bandaríkjanna hafa minnkað talsvert á meðan útgjöld annarra landa, meðal annars Rússlands, hafa aukist. Árið 2015 námu útgjöld vegna hernaðarmála um 2,3 prósentum af samanlagðri landsframleiðslu ríkja heims. 2,3 prósent af landsframleiðslu Íslands í fyrra eru 50 milljarðar króna, til að veita vísbendingu um stærðargráðuna. Fyrir þá upphæð má reka Landspítalann í eitt ár.

Tekjur af hergagnasölu virðast einnig hafa haldist tiltölulega stöðugar undanfarin ár samkvæmt tölum sænsku rannsóknastofnunarinnar SIPRI. Tekjur 100 stærstu hergagnaframleiðanda heims námu 442 milljörðum dollara í fyrra, eða sem jafngildir landsframleiðslu Austurríkis. Að vísu verður að gera þann fyrirvara að kínverskir framleiðendur eru ekki í þessari samtölu, en hernaðarútgjöld Kína hafa vaxið talsvert hratt síðustu árin.

Ítarlega er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .