Fjölmiðlafyrirtækið 365, sem á og rekur Stöð 2, Vísi.is, Fréttablaðið og Bylgjuna, ásamt fleiri sjónvarps- og útvarpsstöðvum, hefur á undanförnum árum farið í gegnum rússíbanareið þegar kemur að innra starfi og umgjörð. Frá því árið 2006, er Ari Edwald tók við stjórnartaumunum, hefur fyrirtækið minnkað þegar horft er til stöðugilda. Um 280 heilsárs stöðugildi eru nú hjá félaginu en þau voru 460 í upphafi árs 2006.

Hörð samkeppni

Ég held að það sé óhætt að segja að 365 eigi í harðri samkeppni. Föst skot hafa farið á milli þín og Páls Magnússonar, útvarpsstjóra, m.a. á síðum Viðskiptablaðsins. Hvernig horfa þessi mál við þér? „Staðan er óeðlileg enda hefur hún verið úrskurðuð brot á EES samningnum, sem alltaf blasti við. Það er verið að rugla saman almannaþjónustu sem kostuð er með opinberu fé og síðan hreinni samkeppnisstarfsemi. Mér finnst stjórnvöld aldrei hafa tekið þetta nægilega alvarlega. Staðan var að breytast hratt þegar RÚV var breytt í opinbert hlutafélag og ekki síður með tilkomu nýrra stjórnenda.

Fyrir mér hafa áherslur stjórnendanna sem nú eru á RÚV birst með svipuðum hætti og ef Þjóðleikhúsinu yrði breytt í Smárabíó eða ef ríkið myndi opna diskótek út í bæ. Það er undarlegt að stjórnmálamenn sem tala fyrir samkeppni skuli ekkert vilja láta gera í þessum augljósu og síendurteknu lögbrotum sem Eftirlitsstofnun EFTA og raunar Samkeppniseftirlitið líka hafa staðfest. Þessi staða hefur skaðað þessa atvinnugrein, fjölmiðlarekstur, mjög mikið. Líklega okkur minna en suma aðra vegna stærðarhagkvæmni sem við höfum byggt upp. Helst bitnar þetta á minni aðilum og dregur almennt úr fjölbreytni á fjölmiðlamarkaði.“

Ítarlegra viðtal við Ara má finna í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.