Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir að heimsmarkaðsverð á áli þurfi að hækka um 30-40% til þess að hægt verið að ljúka samningum um raforkuframleiðslu fyrir álver Century Aluminum í Helguvík.

Eins og fram kom í Viðskiptablaðinu á fimmtudaginn sagði Michael Bless, forstjóri Century Aluminum, á fundi hjá Bank of America Merryll Lynch að hann væri reiðubúinn til þess að líta á fjárfestingar fyrirtækisins í Helguvík sem sokkinn kostnað. Þetta bendir til þess að hann telji litlar líkur á því að álver rísi.

Hörður sagði í samtali við fréttastofu RÚV í kvöld að það misræmi sem er í yfirlýsingum forsvarsmanna Century Aluminum í Bandaríkjunum og hér heima sé óheppilegt. Hérna á Íslandi er gefið í skyn að verkefnið geti farið af stað innan mjög skamms tíma en undanfarin þrjú ár hafa þeir tjáð sig mjög skýrt í Bandaríkjunum með að það væru ýmis ljón í veginum og því miður hefur atburðarrásin verið í samræmi við upplýsingagjöf þeirra í Bandaríkjunum. Það er ljóst að þetta misræmi á upplýsingagjöf hér og í Bandaríkjunum tel ég afar óheppilegt,“ segir hann.