Landsvirkjun hefur greitt ríkinu 110 milljóna dala á núvirði, jafnvirði rúmra 12,9 milljarða króna, á 46 árum. Þetta jafngildir tæpum 282 milljónum króna á ári. „Arðsemi eiginfjár Landsvirkjunar hefur ekki verið nægjanleg, jafnvel þótt vaxtakostnaður hafi verið í sögulegu lágmarki“ segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar. Hann telur greiðslur til ríkisins hafa verið alltof lágar í gegnum árin.

Haustfundur Landsvirkjunar stendur nú yfir í Hörpu.

Hörður hefur farið yfir stöðu Landsvirkjunar, arðsemi og afkomu.

Hann benti á að hagnaður Landsvirkjunar í fyrra hafi verið 73 milljónir dala eftir skatta. Það jafngildir 8 milljörðum króna. Það er langt undir 11% arðsemiskröfu fyrirtækisins og því hefði hagnaðurinn þurft að vera 170 milljónir dala, eða tæplega þrisvar sinnum hærri en raunin varð. Af þeim sökum verði að selja raforku á hærra verði.

Þar sem eigendur Landsvirkjunar, ríkissjóður, hefur ekki fengið háar fjárhæðir í arðgreiðslur þá mynast ekki auðlindaarður. Af þeim sökum sé óvíst hvort auðlindir landsins beri nafn með rentu.