Hörður Arnarson var ráðinn forstjóri Landsvirkjunar síðla sumars 2009. Hann hafði þá um nokkurra mánaða skeið verið forstjóri Sjóvár en þar áður forstjóri Marels í 10 ár. Starferill hans hjá Marel náði að vísu aftur til ársins 1985 þannig að hann starfaði hjá fyrirtækinu í tæp 25 ár.

„Það eru forréttindi að fá að taka þátt í þessu,“ segir Hörður aðspurður um núverandi stöðu sína í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu.

„Þetta er spennandi geiri. Það eru mörg tækifæri til staðar nú sem voru það ekki fyrir tíu árum.“

Þú átt að baki langan og farsælan feril í einkageiranum, en það hlýtur að vera mikill munur að starfa nú hjá ríkisfyrirtæki, skýtur blaðamaður að.

„Já, það er mikill munur. Hann felst fyrst og fremst í því hversu margir hafa skoðun á Landsvirkjun,“ segir Hörður.

„Þessu starfi fylgir mun meira sviðsljós en ég gerði ráð fyrir. Mér finnst það í sjálfu sér ekki óþægilegt en ég hef ekki sóst eftir því.“

Gerðir þú þér grein fyrir því þegar þú sóttir um þetta starf?

„Nei, ég hugsaði í raun ekki mikið út í það. En þær breytingar sem við höfum innleitt samhliða því að auka upplýsingaflæðið kallar auðvitað á meiri athygli, en það venst eins og annað,“ segir Hörður.

Aðspurður um tíma sinn hjá Marel segist Hörður vera bæði stoltur og ánægður með þann tíma en það má heyra á honum að hann vill lítið tjá sig um starfslokin þegar eftir því er leitað.

„Það var mikið ævintýri að taka þátt í þessu og starfa með því góða fólki sem þar er,“ segir Hörður.

„Þetta var eitt fyrsta tæknifyrirtækið sem var stofnað á Íslandi og fór í gegnum mikið þróunarskeið. Okkur óraði ekki fyrir því þegar við lögðum af stað hvar þetta myndi enda. Oft þegar maður er staddur í ævintýri þá áttar maður sig ekki á því á meðan maður er í þeim, en árangurinn sem náðist var langt fram úr okkar væntingum.“

En það hlýtur að vera skrýtin tilfinning að láta af störfum eftir 25 ár hjá sama fyrirtækinu?

„Það er gott að breyta til en vissulega er það skrýtin tilfinning,“ segir Hörður.

„En 25 ár eru líka góður hlutur af ævinni og það hefur allt sinn tíma. Það er líka gaman að koma að koma hér að ekki síður skemmtilegu verkefni og hver veit nema maður eigi eftir að koma að fleiri verkefnum í framtíðinni.“

Nánar er rætt við Hörð í viðtali í Viðskiptablaðinu. Þar fer hann yfir helstu verkefni og áherslur Landsvirkjunar, möguleikana á nýtingu vindorku, áhrif þess að leggja sæstreng og selja þannig orku til Evrópu og fleira.