Verið er að vinna í um 10 verkefnum um sölu á orku á vegum Landsvirkjunar. Öll verkefnin eru enn á trúnaðarstigi og ekki hægt að greina frá þeim í bili.

Þetta sagði Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, á ársfundi Landsvirkjunar sem nú stendur yfir.

Í erindi sínu sagði Hörður að Landsvirkjun hefði sætt gagnrýni fyrir að hafa ekki gert neina nýja orkusamninga síðustu árin. Hann minnti þó á að efnahagsástandið í heiminum væri ekki beysið um þessar mundir. Aðeins ein orkudrifin starfsemi hefði aukið við umsvif sín á síðustu árum og það væru gagnver. Í því samhengi sagði Hörður að hér á landi hefðu nýlega verið opnuð tvö ný gagnaver.

Hörður lýsti í stuttu máli þróun raforkusamninga og ítrekaði að á fyrstu stigum umræðna væri haldið trúnaði við viðeigandi aðila. Það væri alþekkt í þessum geira, bæði af ósk tilvonandi kaupanda og eins til að skapa ekki óraunhæfar væntingar.

Sem fyrr segir sagði Hörður að nú væru um 10 verkefni í vinnslu á mismundandi stigum.

Þá sagði Hörður að þrátt fyrir að ekki stæði til að selja orku á útsöluverði þá væri orkuverð hér á landi vel sambærilegt og í flestum tilvikum ódýrari en í nágrannaríkjum okkar.