Það er ekki hlutverk Landsvirkjunar að skapa störf, hagvöxt og útflutningstekjur. Hins vegar koma allir þessi þættir til í kjölfar þeirrar stefnu fyrirtækisins að hámarka afrakstur af þeim orkulindum sem fyrirtækinu er trúað fyrir með sjálfbæra nýtingu, verðmætasköpun og hagkvæmni að leiðarljósi

Þetta sagði Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, á ársfundi Landsvirkjunar sem nú stendur yfir.

Í erindi sínu fjallaði Hörður ítarlega um lagningu sæstrengja milli Skandinavíu (þá helst Noregi) og meginlands Evrópu með samstarfi stjórnvalda í Bretlandi, Noregi og Þýskalandi. Hörður greindi frá því að á aðalfundi samtaka norsks atvinnulífs sem haldinn var í janúar sl. hefði heilmikið verið fjallað um lagningu sæstrengs til meginlandsins og þá möguleika sem því fylgja.

Máli sínu til stuðnings benti Hörður á orð Christian Rynning-Tønnesen, forstjóra Statkraft (sem segja má að sé systurfyrirtæki Landsvirkjunar í Noregi) sem sagði á fyrrnefndum fundi að endurnýjanleg raforka gæti í framtíðinni orðið Noregi jafn mikilvæg og olía og gas.

Hörður fjallaði ítarlega um þá möguleika sem eru til staðar hér á landi til orkunýtingar, með vatnsali, jarðavarma og vindorku og sagði að líkast til byggi engin þjóð í heiminum yfir sömu kostum, þ.e. þessum þremur bestu orkunýtingarkostum á endurnýjanlegri raforku.

Í erindi sínu sagði Hörður að Landsvirkjun væri að bjóða samkeppnishæfustu raforkusölusamninga í heimi, svo vitnað sé til hans eigin orða. Hörður sagði rangt að Landsvirkjun væri að mála síg út í horn með því að verðleggja sig of hátt líkt og einhverjir hafa viljað halda fram. Gera ætti samninga á viðskiptalegum forsendum og miðað við þá samninga sem gerðir eru í öðrum ríkjum væri verðskrá Landsvirkjunar vel samkeppnishæf.