Hörður Ægisson sagði nýverið upp störfum sem ritstjóri Markaðarins og hyggst róa á önnur mið. Þetta staðfestir Hörður í samtali við Viðskiptablaðið.

Hörður hefur ritstýrt Markaðnum frá ársbyrjun 2017 en þar áður hafði hann stýrt viðskiptahluta DV tvö ár þar á undan. Þar áður var hann á Viðskiptamogganum.

Í samtali við Viðskiptablaðið segir Hörður að hann hafi sagt upp störfum fyrir síðustu mánaðamót en hið sama hafi Þorsteinn Friðrik Halldórsson, blaðamaður á Markaðnum, gert. Þórður Gunnarsson er einnig hættur en hann réð sig nýverið til Sýnar í starf sem er ótengt blaðamennsku. Eftir stendur því Helgi Vífill Júlíusson.

Að sögn Harðar hefur uppsögnin ekkert með ráðningu Sigmundar Ernis Rúnarssonar sem ritstjóra Fréttablaðsins að gera. Sigmundur varð ritstjóri í upphafi mánaðar en uppsögn Harðar hafði komið fram áður. Hörður og Þorsteinn eru ekki hættir heldur munu starfa áfram þar til eftirmenn þeirra hafa verið ráðnir.

Aðspurður segist Hörður ekki geta gefið upp á þessari stundu hvað er á döfinni hjá honum. Heimildir Viðskiptablaðsins herma þó að nýr viðskiptamiðill kunni að vera í pípunum.