„Við gefum ekki upp verð í einstökum samningum en þessi samningur er í fullu samræmi við þá verðstefnu sem við höfum,“ segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar um raforkusölusamninginn sem Landsvirkjun og PCC skrifuðu undir í dag. Raforkan er ætluð kísilmálmverksmiðju við Húsavík. 

Hörður segir í samtali við Viðskiptablaðið að samningurinn staðfesti að það séu forsendur fyrir hendi til að leita eftir hærra verði á þeirri raforku sem Landsvirkjun selur. Hörður segir fyrirtækið hafa náð miklum árangri í að minnka verðmun á raforku sem seld er hér og í Evrópu. Landsvirkjun sé þó enn að bjóða mjög hagkvæmt verð og það besta í Evrópu.

„Hagsmunir Landsvirkjunar eru mjög vel tryggðir og ekki tekin sú áhætta til dæmis að tengja allt við kísilmálmverð eða eitthvað slíkt,“ segir Hörður aðspurður um fyrirkomulagið á verðmyndun í samningnum við PCC. Hann segir ekkii mikla áhættu fólgna í samningnum fyrir Landsvirkjun.

„Það eru fleiri aðilar sem eru í viðræðum við okkur,“ segir Hörður en það getur þó tekið nokkurn tíma áður en tilkynnt verður um fleiri raforkusölusamninga. Samningurinn sem nú var tilkynnt tók um 18 mánuði að ganga frá. Áætlað er að kísilmálmverksmiðjan, sem verður með 32 þúsund tonna framleiðslugetu, taki til starfa í lok árs 2015 og þurfi 52 MW af afli eða 456 GWst af raforku á ári. Samningurinn gildir til 15 ára.

Samningurinn er undirritaður með ákveðnum fyrirvörum, þ.m.t. um tilheyrandi leyfisveitingar, samninga við íslenska ríkið og Landsnet og fjármögnun, sem er áætlað að verði lokið fyrir maí 2013.