Hagnaður Landsvirkjunar nam í fyrra 78,4 milljónum dala, andvirði um 10,2 milljarða króna, en árið 2013 nam tap fyrirtækisins 38,5 milljónum dala, eða um fimm milljörðum króna.

„Við erum nokkuð ánægð með uppgjörið,“ segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, í samtali við Viðskiptablaðið.. „Þetta var ekki einfalt ár, einkum vegna lágs álverðs og takmörkunar á afhendingu raforku vegna slakrar vatnsstöðu. Í þessu ljósi er rekstrarafkoma fyrirtækisins vel viðunandi.“

Hann segir að ákvörðun um arðgreiðslu til ríkisins hafi ekki verið tekin, en að hann geri ráð fyrir að hún verði í takt við það sem verið hefur undanfarin ár.

„Við höfum verið að greiða um einn og hálfan milljarð í arð á ári og lagt meiri áherslu á að lækka skuldir. Nettó skuldir fyrirtækisins lækkuðu um 31 milljarð króna á árinu og eru nú um 285 milljarðar. Við viljum halda áfram þessari skuldalækkun áfram enn um sinn. Hins vegar fer að styttast í að við förum að draga úr hraða skuldalækkunarinnar og samhliða því mun arðgreiðslugetan aukast.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .