"Ég fagna því að þessar upplýsingar séu komnar fram og vonandi skýrast mál síðan enn frekar á ekki of löngum tíma," sagði Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, aðspurður um þær tillögur sem fram eru komnar um nýtingu og vernd virkjunarkosta. Eins og greint var frá á vefnum fyrr í dag kynntu Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra og Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra tillögu að þingsályktunartillögu er varðar verndun og nýtingu orkuauðlinda. Tuttugu og tveir virkjanakostir eru sérstaklega nefndir sem orkunýtingarkostir en 27 kostir eru í verndarflokki.

Hörður segir að hann hafi talið að sumir þeirra kosta sem séu í verndarflokki hafi átt heima í virkjanaflokki. Hann sagði þó ótímabært að tjá sig efnislega um hvern og einn kost fyrir sig, að svo stöddu. "Það skiptir máli fyrir Landsvirkjun að það liggi fyrir leiðsögn í þessum efnum að hálfu stjórnvalda og það er fagnaðarefni að þessi mál séu að þokast áfram."

Hörður sagði að við fyrstu sýn virtust sem upplýsingarnar sem kynntar voru í morgun passa ágætlega við þá framtíðarsýn sem Landsvirkjun hefði kynnt á aðalfundi, sem gerði ráð fyrir því að fyrirtækið gæti greitt um einn milljarð dollara, 115 milljarða króna, í arð til eigenda sinna á ári árið 2025.