Hörður Þórhallsson hefur verið ráðinn forstjóri heilbrigðisfyrirtækisins Icepharma hf.. Hann tekur við starfinu af Margréti Guðmundsdóttur, sem lætur af störfum 1. júlí nk. eftir 11 ár í þjónustu félagsins.

Hörður Þórhallsson er rekstrarverkfræðingur, útskrifaður frá háskólanum í Karlsruhe í Þýskalandi. Hörður starfaði áður hjá Actavis og leiddi uppbyggingu fyrirtækisins í Asíu, Eyjaálfu, Afríku og Miðausturlöndum með starfsstöð og búsetu í Sviss og Singapúr.

Hörður var ráðinn tímabundið sem framkvæmdastjóri Stjórnstöðvar ferðamála við stofnun hennar til að byggja upp starfsemina og koma verkefnum af stað. Hann lýkur þar störfum á næstu vikum. Eiginkona Harðar er Íris Anna Karlsdóttir, landakortafræðingur og eiga þau þrjú börn.

Hörður segir áhugavert að taka við rekstri Icepharma á þessum tímapunkti: „Ég tek við spennandi verkefni því Icepharma er nú þegar leiðandi fyrirtæki á sviði lýðheilsu og er í góðum rekstri. Ég hlakka til kynnast þessu öfluga starfsfólki og stjórnendum sem eru hjá Icepharma og að leiða hópinn á vit nýrra áskoranna.”

Margrét Guðmundsdóttir hóf störf hjá forverum Icepharma árið 2005 en tók svo við forstjórastarfi hins sameinaða félags 2006 og hefur gengt því starfi þar til nú. Margrét mun halda áfram stjórnarsetu í móðurfélagi Icepharma, Eignarhaldsfélaginu Lyng ehf, auk þess að vera framkvæmdastjóri þess félags. Þá mun Margrét sitja áfram í stjórn Lyfjaþjónustunnar og Icepharma A/S í Danmörku, sem eru félög í eigu sama eigendahóps.