„Það væri æskilegast að fyrirtækið væri það fjárhagslega sterkt að það gæti fjármagnað sig út frá sínum eigin efnahagsreikning. En það er of skuldsett til þess í dag,“ segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, í viðtali við Viðskiptablaðið aðspurður um framtíðarfjárfestingar Landsvirkjunar.

Hörður var m.a. spurður hvort þær yrðu á ábyrgð ríkisins eða hvort skoðaðar yrðu aðrar fjármögnunarleiðir. Kaflinn sem hér er birtur rataði ekki í prentútgáfu blaðsins og er því birtur hér í heild sinni.

Aðspurður um aðkomu einkaaðila að fjármögnum virkjanaframkvæmda vill Hörður ekki tjá sig um það og vísar til þess að það sé í höndum eigandans að ákveða slíkt.

„Norska ríkið á 100% hlut í orkufyrirtækinu Statkraft og 70% hlut í olíufyrirtækinu Statoil,“ segir Hörður.

„Þetta eru bæði vel rekin fyrirtæki þannig að það er hægt að fara báðar leiðir. Það sem við hins vegar þurfum að varast eru óhófleg nýting ríkisábyrgða. Það er í raun of auðveld leið fyrir ríkið að styðja við frekari vöxt með því að gangast í ábyrgð. Það væri mun hreinlegra og gegnsærri aðgerð að gera það frekar með eiginfjárframlagi. Ríkisábyrgð er mjög víðtæk og það sést sérstaklega í tilfelli Landsvirkjunar þar sem ríkisábyrgðin tekur ekki bara á skuldum heldur líka rekstri fyrirtækisins. En hvað eignarhaldið varðar þá er það pólitísk ákvörðun og það þarf að vanda þá umræðu mjög vel ef menn vilja taka hana.“

Nánar er rætt við Hörð í viðtali í Viðskiptablaðinu. Þar fer hann yfir helstu verkefni og áherslur Landsvirkjunar, möguleikana á nýtingu vindorku, áhrif þess að leggja sæstreng og selja þannig orku til Evrópu og fleira. Þá tjáir Hörður sig einnig um 25 ára starfsferil sinn hjá Marel.