*

föstudagur, 3. apríl 2020
Innlent 12. febrúar 2020 11:27

Hörður segir raforkusamning sanngjarnan

Landsvirkjun sýni krefjandi aðstæðum á álmörkuðum skilning og eigi samtal við Rio Tinto að sögn forstjórans.

Ritstjórn
Hörður Arnarson er forstjóri Landsvirkjunar.
Haraldur Guðjónsson

Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar segir að félagið sýni aðstæðum Rio Tinto skilning og að félögin eigi nú samtal um stöðu félagsins, en hann telur raforkusamning aðilanna sanngjarnan fyrir báða aðila.

„Við sýnum því skilning að aðstæður fyrirtækisins eru krefjandi og eigum í samtali við Rio Tinto til þess að fá sameiginlega sýn á stöðu mála,“ segir Hörður. „Við höfum sagt og teljum áfram að raforkusamningurinn sé sanngjarn fyrir báða aðila og að það séu fleiri þættir en raforkuverðið sem hafa áhrif á þeirra stöðu en þetta erum við að greina nánar í sameiningu.“

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í morgun hefur Rio Tinto, eigandi álversins í Straumsvík, tilkynnt að leitað sé leiða til þess að bæta samkeppnisstöðu álversins í þeim krefjandi aðstæðum sem nú eru uppi á álmörkuðum, og þar á meðal komi lokun álvers félagsins hér á landi til greina.

Í tilkynningu frá Landsvirkjun segir að þekkt sé að aðstæður á álmörkuðum sé mjög krefjandi um þessar mundir, meðal annars út af lágu álverði, minni eftirspurn og mikilli framleiðsluaukningu í Kína undanfarin ár. Einnig hafi álverið í Straumsvík lent í rekstrarerfiðleikum sem hefur meðal annars haft áhrif á afkomu þess.

Landsvirkjun og álverið í Straumsvík hafi hins vegar átt í farsælu og löngu viðskiptasambandi frá stofnun, en núgildandi raforkusamningur milli Landsvirkjunar og Rio Tinto hefur verið í gildi síðan 2010.