Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir aukinn áhuga vera frá stærri og breiðari hópi fyrirtækja en áður, úr fjölbreyttari iðngreiðnum. Þetta kemur fram í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag. „Þessi aukna eftirspurn hefur m.a. haft þá ánægjulegu birtingarmynd að raforkuverð til iðnaðar hefur hækkað umtalsvert með nýjustu samningum fyrirtækisins. Þetta nýja ástand, þar sem eftirspurn er meiri en framboð, er komið til að vera og því fylgja nýjar áskoranir. Ef þróun á alþjóðlegum raforkumörkuðum verður eins og spáð er og ef vel tekst til í rekstri Landsvirkjunar, mun afkoma fyrirtækisins og arð- og skattgreiðslur hafa mjög jákvæð áhrif á lífskjör Íslendinga.“

Árið 2014 nam hagnaður Landsvirkjunar fyrir óinnleysa fjármagnsliði 19 milljörðum króna. Eignir umfram skuldir nema nú rúmum 230 milljörðum króna og eiginfjárhlutfallið er tæplega 40%. „Það hefur ekki verið hærra frá upphafsárum Landsvirkjunar og fjárhagsstaða fyrirtækisins batnar með hverju árinu sem líður. Annar mælikvarði, sem okkur er tamt að líta til, er svokölluð fjármunamyndun í rekstri fyrirtækisins: Það sem við höfum til ráðstöfunar eftir að við erum búin að greiða allan rekstrarkostnað og vaxtakostnað Landsvirkjunar. Á síðustu fimm árum hefur fjármunamyndunin numið rúmum 140 milljörðum króna: Fjárfestingar í orkumannvirkjum rúmum 60 milljörðum og niðurgreiðsla skulda rúmum 80 milljörðum króna,“ segir Hörður.

Landsvirkjun heldur ársfund á fimmtugasta afmælisári sínu í Hörpu 5. maí næstkomandi.