Stjórnendur Saudi Armaco, ríkisolíufyrirtækis Sádi Arabíu eru á nýjan leik farnir að horfa til þess að skrá félagið á hlutabréfamarkað og gæti skráningin jafnvel átt sér stað á næsta ári samkvæmt frétt Wall Street Jorunal . Skráningin yrði sú langstærsta í sögunni en krónprins Sádi Arabíu, Mohammed bin Salman sagði árið 2018 að fyrirtækið væri metið á um 2.000 milljarða dollara sem myndi gera það að langverðmætasta fyrirtæki heims. Það þýðir að ef einungis 5% af hlutafé þess yrði sett á markað yrði markaðsvirði þess um 100 milljarðar dollara.

Ekki eru þó allir sammála um verðmatið á félaginu og var það ein af ástæðum þess að skráningunni var seinkað þar sem verðmat alþjóðlegra fjárfestingabanka var ekki samræmi við verðmat stjórnvalda og varð það til þess að krónprinsinn kallaði eftir því að skráningunni yrði frestað til 2020 eða 2021. Stjórnvöld í landinu eru nú hins vegar bjartsýnni um skráningu eftir vel heppnað 12 milljarða dollara skuldabréfaútboð þess í apríl síðastliðnum. Í útboðsgögnum þess útboðs kom meðal annars fram að hagnaður Saudi Armaco hafi numið 111 milljörðum dollara á síðasta ári sem gerir það af langarðbærasta fyrirtæki heims þegar litið er á upphæð hagnaðar.

Skráning Saudi Armaco er ætlað að vera liður í því að opna hagkerfi heimalandsins með að veita fjárfestum aðgengi að fyrirtækinu. Þá eru stjórnvöld í landinu fjárþurfi og er ætlunin að nýta fjármuni frá sölunni til þess að fjármagna útgjöld til velferðar- og varnarmála. Ríkisútgjöld hafa aukist í Sádi Arabíu á síðustu misserum og er gert ráð fyrir að útgjöld ársins muni nema 7% af vergri landsframleiðslu landsins sem er vel yfir 4,2% spá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá því í maí.