Útgöngubann á Indlandi vegna kórónufaraldursins hefur valdið gríðarlegri röskun á lífi margra. Fjölmargir hafa ekki í sig og á án þess að mæta í vinnu, og farandverkamenn freista þess unnvörpum að komast heim til þorpa sinna þrátt fyrir lokun almenningssamgangna.

Þann 25. mars síðastliðinn fyrirskipaði forsætisráðherra Indlands, Narendra Modi, þriggja vikna útgöngubann til að bregðast við útbreiðslu kórónufaraldursins. Síðastliðinn þriðjudag var það svo framlengt til 3. maí.

Bannið var lagt á með aðeins fjögurra klukkustunda fyrirvara og kom mörgum í opna skjöldu, eins og gefur að skilja.

Þótt Modi fullyrði að aðgerðirnar verði þess virði þegar upp er staðið hefur stór hluti landsmanna lítinn sem engan sparnað upp á að hlaupa eða annars konar tryggingu gegn skyndilegum tekjumissi, og á hvorki rétt á uppsagnarfresti né atvinnuleysisbótum.

Í ávarpi sínu um útgöngubannið sagði Modi áheyrendum að „gleyma því að yfirgefa heimili sitt næstu þrjár vikurnar“. Hann fullvissaði landsmenn um að nauðsynleg þjónusta yrði óröskuð.

120 milljónir farandverkamanna á vergangi
Farandverkamenn frá dreifbýlli svæðum Indlands leita gjarnan í þéttbýli í leit að vinnu. Talið er að þeir séu að lágmarki 120 milljónir talsins, eða tæpur tíundi hluti þjóðarinnar.

Margir þeirra freistuðust til þess að snúa til síns heimaþorps úr borgunum sem áður höfðu séð þeim fyrir lífsviðurværi eftir tilkynningu Modi.

Slegist var um sæti um borð í síðustu lestarferðum fyrir gildistöku útgöngubannsins, og margir sáu ekkert annað í stöðunni en að fara fótgangandi, sumir hátt í 1.000 kílómetra.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .