Alþjóðleg lyfjafyrirtæki hyggjast útvíkka starfsemi sína og auka fjárfestingu í Asíu á næstu mánuðum, þrátt fyrir að þau hafi áhyggjur af spillingu sem þar ríkir og erfiðleikum við að sækja um einkaleyfi. Þetta kemur fram í nýrri könnun sem ráðgjafafyrirtækið PwC gerði á meðal 185 stjórnenda í lyfjaiðnaðinum.

Eitt af hverjum þremur alþjóðlegum lyfjafyrirtækjum sem nú þegar er með starfsemi í Asíu ætlar að útvíkka starfsemi sína í álfunni enn frekar, meðal annars með því að ráðast í yfirtökur á öðrum fyrirtækjum í iðnaðinum. Þrjú af hverjum fjórum lyfjafyrirtækjum sem eru aðeins með starfsemi í heimalandi sínu, segja einnig að eitt af mikilvægari markmiðum þeirra sé að sækja inn á nýja markaði á heimsvísu og hafa þá Asíu einkum í huga.

Þessar niðurstöður ættu ekki að koma sérstaklega á óvart. Mikill efnahagsvöxtur hefur verið í Asíu undanfarin ár og búast margir sérfræðingar við því að lyfjamarkaðurinn þar verði sá stærsti í heiminum. Fastlega er gert ráð fyrir því að í kjölfarið muni samkeppni á markaðinum aukast til muna.

Það sem hinir 185 stjórnendur sem tóku þátt í könnuninni höfðu mestar áhyggjur af samhliða því að auka starfsemi sína í Asíu, var annars vegar ástand dóms- og réttarkerfisins og hins vegar verndun hugverkaréttar. Aftur á móti sagði meirihluti stjórnendanna að þeir hefðu orðir varir við framfarir í þessum efnum síðastliðinn fimm ár í Asíu.

Meðferðarprófun (e. clinical trial) var aðallega nefnd sem sú viðskiptastarfsemi sem væri líklegust til að vera úthýst í auknum mæli til Asíu, en einnig lyfjaþróun og greiningarvinna.

Stór lyfjafyrirtæki hafa fjárfest mikið í Singapúr, þar sem þrjátíu líftæknifyrirtæki starfa, og á undanförnum árum hafa fjáfestingarnar numið samtals 1,3 milljörðum Bandaríkjadala. Önnur lönd í Asíu þar sem mikil fjárfestingartækifæri eru fyrir hendi að mati öflugra lyfjafyritækja, eru Suður-Kórea, Kína og Indland.