Kínverski bílaframleiðandinn Great Wall Motor, hefur lýst yfir áhuga á að yfirtaka bílaframleiðandann Fiat Chrysler. Þetta kemur fram í frétt Reuters þar sem vitnað er í yfirmann hjá kínverska fyrirtækinu.

Greint var frá því í síðustu viku að óþekktur kínverskur bílaframleiðandi hafi gert tilboð í Fiat Chrysler. „Í ljósi þess sem fram hefur komið, þá höfum við áhuga á yfirtöku, við höfum áhuga á Fiat Chrysler," sagði yfirmaður í samskiptadeild kínverska fyrirtækisins í samtali við Reuters. Viðkomandi sagði ekki til nafns og neitaði að veita frekari upplýsingar.

Ekki liggur ljóst fyrir hvort Great Wall hyggst kaupa Fiat Chrysler í heild sinni eða hluta þess. Ef Great Wall myndi kaupa hluta Fiat Chrysler, er talið líklegt að kínverska fyrirtækið horfið til Jeep hluta fyrirtækisins.

Stjórnendur Fiat Chrysler hafa hins vegar gefið það út að kínverska fyrirtækið hafi ekki en lagt fram tilboð í fyrirtækið sem er sjöundi stærsti bílaframleiðandi heims.

Gengi hlutabréfa Fiat Crysler hefur hækkað um 4,2% það sem af er degi. Hefur gengi bréfa félagsins hækkað um 11,7% frá því fréttir bárust fyrst af mögulegri yfirtöku kínverska fyrirtækisins í síðustu viku.