*

fimmtudagur, 1. október 2020
Innlent 13. ágúst 2020 19:50

Horfa til íslenskra fjárfesta

„Við höfum fundið einhvern áhuga erlendis," segir forstjóri Icelandair en áherslan verður á Ísland í hlutafjárútboði félagsins.

Júlíus Þór Halldórsson
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group.
Haraldur Guðjónsson

Icelandair hyggst gefa út skráningarlýsingu fyrir 30 milljarða króna hlutafjárútboð, sem unnið hefur verið að frá því í vor, á næstu dögum. Félagið þarf að vinna hratt, þar sem heimild stjórnar til hlutafjáraukningar gildir aðeins út mánuðinn, og hugsanlegir þátttakendur þurfa sinn tíma til að fara yfir gögnin.

Bogi Nils Bogason, forstjóri félagsins, segir þó enn stefnt að því. „Það er tímalínan sem við erum að vinna eftir núna.“ Gangi útboðið eftir verður það ein stærsta hlutafjáraukning síðari ára hér á landi, og eignarhlutur núverandi eigenda kann að þynnast niður í rúm 15%.

Bogi segir að ekki sé horft að ráði til erlendra fjárfesta sem tilvonandi þátttakenda, þótt einhvers áhuga hafi gætt þaðan. „Við höfum fundið einhvern áhuga erlendis frá og munum væntanlega setja okkur í samband við þá aðila sem hafa sýnt þessu áhuga þegar útboðsgögnin eru tilbúin, en fókusinn hjá okkur hefur verið og verður á Ísland og íslenska fjárfesta.“

Ekki liggur fyrir nákvæmlega hverjir munu taka þátt í útboðinu, en búist er við að aðkoma lífeyrissjóðanna verði talsverð, enda eiga þeir sín á milli tæpan helming í félaginu í dag. Ekki er búist við að bandaríska fjárfestingafélagið PAR Capital, sem var þar til fyrr í sumar stærsti hluthafi félagsins, taki þátt í útboðinu. PAR Capital hefur síðustu misseri selt sig niður í Icelandair og lækkað hlut sinn í félaginu úr 13,7% í 10,9%.  Auk lífeyrissjóðanna og PAR Capital eiga sjóðir á vegum sjóðstýringafyrirtækisins Stefnis 10,6% hlut.

Nánar er rætt við Boga í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér