Ætla má að íslenskir stjórnendur meti það sem svo að vaxtarmöguleikar innanlands við núverandi aðstæður séu takmarkaðir en svigrúm til vaxtar á erlendum mörkuðum sé til staðar, sem meirihluti þeirra sem eru í erlendum viðskiptum ætla að nýta sér.

Þetta kemur fram í nýrri könnun Samtaka atvinnulífsins (SA) á rekstrarhorfum fyrirtækja innan SA sem gerð var dagana 6.-11. október 2011. Um 27% fyrirtækjanna sem tóku þátt í könnuninni starfa í útflutningi eða eru með starfsemi erlendis.

Sóknarhugur er í fyrirtækjum sem starfa í útflutningsgreinum eða eru með starfsemi erlendis. Ríflega helmingur þeirra (56%) hyggst auka útflutning eða erlenda starfsemi á næstu 2-3 árum, tæpur þriðjungur (29%) telur það óvíst en 15% fyrirtækjanna hyggjast ekki gera það.

Könnunin sýnir að innan ferðaþjónustunnar hyggjast 75% þeirra sem sögðust vera með erlenda starfsemi efla hana á næstu 2-3 árum, 62% fyrirtækja í iðnaði, 45% fyrirtækja í fiskvinnslu, 24% í útgerð og 11% í verslun og þjónustu.

Dökkar horfur innanlands

Ekki er jafn bjart um að lítast þegar litið er á vaxtahorfurnar innanlands. Á næstu sex mánuðum hyggjast sex af hverjum tíu (63%) aðildarfyrirtækja SA ekki gera breytingar á starfsmannafjölda og aðeins 18% áforma fjölgun starfsmanna. Fjárfestingaráform atvinnuveganna eru áfram í algjöru lágmarki samkvæmt könnuninni en aðeins rúmlega 14% hyggjast ráðast í umtalsverðar fjárfestingar eða endurbætur á næsta ári.

Þá telur rúmur helmingur (53%) stjórnenda að fyrirtæki þeirra muni ekki vaxa neitt á næstu 2-3 árum. Þriðjungur býst við 0-10% vexti á ári, um 10% stjórnenda telja að fyrirtæki þeirra vaxi um 11-20% á ári og rúm 4% um 21% eða meira. Fimmtungur stjórnenda býst við því að rekstur fyrirtækja þeirra dragist saman á næstu 2-3 árum.

Aðgerðir stjórnvalda helsta vandamálið

Rúmlega þriðjungur aðildarfyrirtækja SA telur aðgerðir stjórnvalda vera helsta vandamál fyrirtækisins við núverandi aðstæður og tæplega fjórðungur til viðbótar setur aðgerðir stjórnvalda í annað sæti meðal helstu vandamála þeirra. Um 70% fyrirtækja í sjávarútvegi telja aðgerðir stjórnvalda vera helsta vandamál fyrirtækisins og um 40% í verslun og þjónustu.

Annað helsta vandamál fyrirtækja er hins vegar skuldir og hár fjármagnskostnaður Rúmlega fjögur af hverjum tíu fyrirtækjum setja litla eftirspurn og erfiðan markað í fyrsta og annað sæti yfir helstu vandamál fyrirtækisins og um þrjú af hverjum tíu setja skattamál í þau sæti.