Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir lága húsnæðisvexti og stöðugleika langstærsta hagsmunamál heimilanna í aðdraganda kjarasamninga í sumar.

Bjarni bendir á að launahækkanir hér á landi hafi á undanförnum árum verið talsvert meiri en á Norðurlöndunum, en vextir og verðbólga hafi einnig verið hærri. Kaupmáttur hafi þannig ekki vaxið langt umfram Norðurlöndin hér, þótt launin hafi gert það í krónum talið. „Það er mjög sláandi að við höfum verið með 7,5% hækkun launavísitölunnar í fyrra.“

Sjá einnig: Taka lán fyrir laununum

Vill að horft sé til lífsgæða í víðara samhengi
„Við stöndum á ákveðnum tímamótum og það þarf að eiga sér stað heiðarlegt samtal um það hvað er raunhæft að laun á Íslandi hækki mikið.“

Íslendingar hafi kynnst nýjum veruleika með lágvaxtaumhverfi undanfarinna ára, sem meðal annars leiddi til þess að óverðtryggð lán ruddu sér til rúms í meiri mæli en áður. „Við hljótum að geta verið sammála um að það væri æskilegt að efnahagsmálin myndu þróast á þann veg að vextir yrðu sem allra lægstir á komandi misserum og árum. Það verður ekki of oft á það bent að lágir húsnæðisvextir eru langstærsta hagsmunamál heimilanna. Fyrir heimili sem hafa fjárfest í eigin húsnæði er eiginlega ekkert annað mál sem trompar stöðugleika í efnahagsmálum.“

Kaupaukakerfin allt önnur í dag
Aðspurður vill Bjarni ekkert fullyrða um áhrif nýkynntra kaupaukakerfa skráðra fyrirtækja og mikils hagnaðar og verðhækkana í Kauphöllinni síðustu misseri á anda komandi kjaraviðræðna. Himinn og haf sé á milli kaupaukakerfa dagsins í dag og þeirra sem við lýði voru fyrir hrun.

„Það á bara eftir að koma í ljós hvort það veldur einhverri úlfúð, ég ætla ekki að dæma um það fyrir fram. Ég er ekki þeirrar skoðunar að kaupaukar séu einhver áberandi meinsemd á íslenskum launamarkaði í dag.“

Nánar er rætt við Bjarna í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .