Skipti, móðurfélag Símans, Mílu og Skjásins, mun nú horfa frá þeirri útrás á erlenda markaði sem einkenndi reksturinn áður og einblína á íslenska fjarskiptamarkaðinn, hagræðingu í rekstrinum og fjárfestingar í frekari uppbyggingu á fjarskiptakerfum. Síminn DK er ekki lengur skilgreint sem hluti af kjarnastarfsemi Skipta og verður selt í fyllingu tímans. Sáma á við um On-Waves, sem er í eigu Símans.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Skiptum. 45 starfsmönnum var sagt upp störfum í dag og hefur stöðugildum fækkað um 68 á árinu. Hjá Mílú, Símanum og Skjánum starfa nú 905 manns.

„Skipti og helstu dótturfélög þeirra, Síminn, Míla og Skjárinn,  hafa ekki farið varhluta af áhrifum efnahagshrunsins á Íslandi.   Þannig hækkuðu erlend lán samstæðunnar mikið við fall íslensku krónunnar og þar að auki hafa tekjur á fjarskiptamarkaði dregist saman. Á sama tíma hefur markaðshlutdeild Símans minnkað vegna harðnandi samkeppni og vegna kvaða frá eftirlitsstofnunum,“ segir í tilkynningunni.

Steinn Logi Björnsson, forstjóri Skipta, segir breytingarnar vera í takt við breytingar sem hafa orðið í íslensku efnahags- og viðskiptalífi. Nú vilji félagið færa reksturinn nær því sem áður var. „Ekki verður gengið svo langt að sameina aftur Símann og Mílu, heldur verða þau rekin áfram sem sjálfstæð félög innan Skipta ásamt Skjánum og dótturfélögum Símans. Síminn DK er ekki lengur skilgreint sem hluti af kjarnastarfsemi Skipta og verður því selt í fyllingu tímans.  Sama á við um On-Waves sem er í eigu Símans. Með þessum aðgerðum og breytingum vonumst við til að geta aukið arðsemi og verðmæti Skiptasamstæðunnar og auðveldað endurfjármögnun félagsins."