Evrópusambandið mun síðar á þessu ári taka til umfjöllunar tillögur um bann við öllu brottkasti á Norður-Atlantshafi og vonast framkvæmdastjórnin eftir því að þær geti orðið að lögum í byrjun næsta árs. Samhliða banninu hyggst ESB herða eftirlit með veiðum; svæðalokanir á ákveðnum hafsvæðum verða tíðari og takmarkanir verða á notkun tiltekinna veiðarfæra.

Ráðamenn í ESB hafa viðurkennt að núverandi sjávarútvegsstefna sambandsins hafi gert meira ógagn en gagn og hún hafi leitt til þess að margar fiskitegundir í Norður-Atlantshafi séu í bráðri útrýmingarhættu - sérstaklega í Norðursjó þar sem ástand þorskstofnsins er mjög slæmt. Joe Borg, yfirmaður sjávarútvegsmála hjá Evrópusambandinu, segir að sjávarútvegsstefnan hafi hvatt þá sem stunda fiskveiðar í aðildarríkjum ESB til að fleygja þúsundum tonna af fiski á hverju ári. "Það eru engin vistfræði, efnahags- eða siðfræðileg rök fyrir brottkastinu. Því fyrr sem við bindum enda á það, því betra," sagði Borg. Sjómenn hafa kvartað undan því að þeir neyðist til að stunda brottkast sökum þeirrar stefnu ESB að setja veiðikvóta á ákveðnar fiskitegundir sem sambandið telur vera í útrýmingarhættu.

Með hinum nýju tillögum Evrópusambandsins er sérstaklega horft til reynslu Íslendinga og Norðmanna af því að minnka brottkast hjá sér, en það er talið að það nemi aðeins í kringum 4% af þeim heildarafla sem þar er veiddur árlega. Hins vegar er brottkast á fiski á meðal aðildarríkja ESB áætlað 25% - samtals um milljón tonn - en á sumum veiðisvæðum eins og í Norðursjó fer það allt upp í 90%. Á meðan talið er að þorskstofninn sé farinn að taka við sér í Noregi og á Íslandi er hann í útrýmingarhættu á mörgum veiðisvæðum í Evrópu.

Samkvæmt tillögum framkvæmdastjórnarinnar verður hinni nýju sjávarútvegsstefna ESB komið á í áföngum. Eftirlit með fiskveiðum tekur miklum breytingum og verður hert til muna. Sjómönnum verður með öllu óheimilt að stunda brottkast og verður þeim skylt að koma með að landi allan afla sinn, sem mun síðan ganga upp í þann kvóta sem þeim er heimilt að veiða. Joe Borg sagði að framkvæmdastjórnin væri að íhuga það hvort rétt væri að greiða útgerðarmönnum ákveðnar skaðabætur fyrir að koma með óæskilegar fiskitegundir að landi. Hins vegar sé nauðsynlegt að gæta þess að þær bætur verði ekki of háar þar sem slíkt kerfi myndi bjóða þeirri hættu heim að sjómenn hefðu hvata af því að veiða ákveðnar fiskitegundir eingöngu í þeim tilgangi til að fá greiddar bætur frá Evrópusambandinu.

Joe Borg segist vonast eftir því að afleiðingarnar af fyrirhugaðri breytingu á sjávarútvegsstefnu ESB verði til þess að útgerðarmenn ráðist í umfangsmiklar breytingar á því hvernig þeir stunda fiskveiðar. Með því að banna allt brottkast verði útgerðarmenn knúnir til þess að fjárfesta í nýrri og tæknivæddari veiðarfærum til þess að auka hagkvæmni.