Horfur á frekari samrunahrinu á meðal þýskra banka í ríkiseigu - eða svokallaðra landsbanka (þ. landesbanken) - jukust í gær þegar stjórnendur BayernLB og sparisjóðsbanka sem eiga helmingshlut í bankanum, lýstu opinberlega yfir stuðningi við samrunaviðræður við samkeppnisaðilann Landesbank Baden-Württemberg (LBBW).

Viðræður eru hafnar á milli eigenda tveggja stærstu ríkisbanka Þýskalands sem gætu á endanum leitt til þess að myndaður yrði næst stærsti banki landsins - aðeins Deutsche Bank væri stærri. Bankasamruni á milli LBBW og BayernLB myndi umbylta hinum opinbera þýska bankamarkaði; heildareignir sameinaðs banka næmu tæplega 900 milljörðum evra og í kjölfarið yrði til einn af stærstu bönkum í Evrópu, að því er fram kemur í frétt Financial Times.

Forsætisráðherrar sambandaríkjanna í Bæjaralandi og Baden-Württemberg, Edmund Stoiber og Günther Oettinger, funduðu síðastliðinn föstudag og ræddu meðal annars yfirvofandi uppstokkun í þýska bankakerfinu, sem er að verulegum hluta í opinberri eigu. Frekari viðræður milli forsætisráðherrana eru fyrirhugaðar bráðlega. Hins vegar hefur blaðið eftir heimildarmönnum að ekki sé um að ræða formlegar samrunaviðræður á þessum tímapunkti, enda hafa engar viðræður enn átt sér stað á milli Siegfried Jaschinski, forstjóra LBBW, og Werner Schmidt, kollega hans í Bæjaralandi.

Landsbankarnir undir miklum þrýstingi
Mikill rígur hefur oft og tíðum einkennt samskipti þessara auðugu sambandsríkja í Suður-Þýskalandi og af þeim sökum eru viðræðurnar - enda þótt þær séu aðeins á byrjunarstigi - taldar vera til marks um þann mikla þrýsting sem landsbankarnir eru undir að hefja samrunaferli sem allra fyrst. Financial Times hefur eftir einum heimildarmanni sínum að "eitthvað hljóti að fara gerast í þessum efnum, þrýstingurinn sé það mikill." Yfirvöld í Berlín hafa löngum lagt mun meiri áherslu á að ráðist verði í slíkar umbætur á bankakerfinu heldur en stjórnmálamenn í sambandsríkum Þýskalands, sem eru margir hverjir ekki reiðubúnir til að gefa eftir þau völd og upphefð sem fylgir því að eiga sæti í stjórnum landsbankanna.

Landsbönkunum, en um þessar mundir eru átta slíkir bankar starfræktir, var upphaflega ætlað að vera heildsölubankar við hliðina á hinum ríkisreknu sparisjóðum (þ. Sparkassen) í sambandsríkjunum sextán í Þýskalandi. Á meðan landsbankarnir nutu ríkisábyrgðar gátu þeir fjármagnað sig á betri kjörum á markaði heldur en bankar í eigu einkaaðila, en árið 2005, undir þrýstingi frá Evrópusambandinu, var ábyrgðinni hins vegar aflétt. Í kjölfarið hafa sumir bankar lent í fjárhagserfiðleikum samhliða því að hafa þurft að fara út í áhættusamari fjárfestingar til að fjármagna starfsemi sína.

Samrunahrina í bankageiranum hófst síðstliðinn ágúst þegar LBBW keypti austurþýska ríkisbankann Landesbank Sachsen, sem hafði átt í miklum vandræðum vegna stöðutöku í undirmálslánum á bandaríska fasteignamarkaðinum. LBBW er jafnframt talinn líklegur til að taka yfir ríkisbankann WestLB í Düsseldorf, en sparisjóðirnir, sem eiga meirihlutaeign í bankanum, hafa lýst því yfir að þeir vilji ná samkomulagi við LBBW. Forsætisráðherra Baden-Württemberg hefur auk þess látið hafa það eftir sér að samruni LBBW og WestLB hafi forgang fram yfir BayernLB - að minnsta kosti á þessari stundu. Verði sameining bankanna þriggja aftur á móti að veruleika yrði til einn af tíu stærstu bönkum Evrópu, ef litið er til heildareigna.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag