Már Guðmundsson seðlabankastjóri segir að ef gengi krónunnar haldist tiltölulega stöðugt séu horfur á að verðbólga haldist við markmið á þessu ári.

„Leggjast þar á eitt hagstæð verðbólguþróun það sem af er þessu ári, vísbendingar um að hækkun launakostnaðar hafi verið minni á síðustu misserum en áður var talið, að kjarasamningar sem náðust um áramótin og samrýmdust verðbólgumarkmiði virðast ætla að verða ráðandi varðandi flesta aðra kjarasamninga og að horfur eru á að alþjóðleg verðbólga verði á næstunni nokkru minni en áður var spáð,“ sagði Már á ársfundi Seðlabanka Íslands i dag.

Hann sagði að þegar litið væri til lengri tíma en árs gæti verðbólgan hins vegar aukist á ný þegar slakinn hverfur úr þjóðarbúskapnum og áhrifa aukinnar fjárfestingar og skuldalækkunaraðgerða færi að gæta með meiri þunga í innlendri eftirspurn. Hvað það gæti þýtt varðandi verðbólgustigið muni ráðast af framvindu verðbólgu og verðbólguvæntinga á þessu ári og öðrum þáttum sem gætu haft áhrif á eftirspurn á næstu misserum. „Það er verkefni peningastefnunefndar á næstunni að ákveða með hvaða hætti verður brugðist við mismunandi horfum til skemmri og lengri tíma varðandi þróun verðbólgu með það að leiðarljósi að hún haldist áfram við markmið,“ sagði Már.

Már sagði að stjórntæki peningamála væru nú til skoðunar með það að markmiði að bæta lausafjárstýringu og búa í haginn fyrir að lausafjárstaða bankakerfisins þrengist samhliða sölu Eignasafns Seðlabanka Íslands á innlendum eignum og öðrum aðgerðum sem gætu tengst losun fjármagnshafta og munivalda því að skammtímavextir á markaði færast nær miðju vaxtagangs Seðlabankans. Við það gætu hreinar vaxtatekjur bankans aukist.