Horfur í efnahagsmálum í Bretlandi hafa batnað og eru vísbendingar um að hagvöxtur verði 0,3% á fyrsta fjórðungi ársins og 0,5% á öðrum fjórðungi. Þetta var á meðal þess sem fram kom í máli sir Mervyn King, fráfarandi seðlabankastjóra í Bretlandi, sem stígur frá í sumar. Mesta hættan sem steðjar að hagkerfinu kemur að utan, að hans mati.

Breska dagblaðið Guardian hefur eftir King á vef sínum að hagkerfið muni rétta úr kútnum hægt og bítandi á næstu árum og draga úr verðbólgu hraðar en spáð hefur verið. King sagði Englandsbanka engu að síður gera ráð fyrir að kjarnaverðbólga verði yfir 2% verðbólgumarkmiðum að mestu á næstu tveimur árum.