Hagvöxtur á evrusvæðinu dróst saman á öðrum ársfjórðungi, í fyrsta skipti frá því að evrunni var hleypt af stokkunum fyrir meira en einum áratug. Verg landsframleiðsla í evruríkjunum fimmtán dróst saman um 0,2% á milli fjórðunga, samkvæmt nýjum tölum frá Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins (ESB). Þetta er mikill viðsnúningur borið saman við fyrstu þrjá mánuði ársins þegar hagvöxtur jókst um 0,7%.

Útlitið er dökkt á evrusvæðinu næstu misserin. Flestir hagfræðingar telja nánast óumflýjanlegt að evrusvæðið sigli inn í tæknilegt samdráttarskeið – tveir ársfjórðungar í röð þar sem vöxtur mælist neikvæður. Á aðeins nokkrum mánuðum hafa efnahagshorfur á evrusvæðinu gjörbreyst til hins verra: Eftir að evruríkjunum tókst að standa af sér mestu vandræðin sem fylgdu í kjölfar undirmálslánakrísunnar í Bandaríkjunum er útlitið nú svart hjá mörgum stærstu hagkerfunum vegna hækkandi orkuverðs, minnkandi einkaneyslu almennings, aukinnar svartsýni í viðskiptalífinu og niðursveiflu í alþjóðahagkerfinu. Ástandið um þessar mundir á sér því engin fordæmi frá því að evran var formlega tekin upp árið 1999.

Jafnvel þegar vöxtur var lítill sem enginn á evrusvæðinu í byrjun þessa áratugar, gerðist það aldrei að vöxtur mældist neikvæður á milli fjórðunga. Fyrir helstu stefnusmiði á evrusvæðinu – hvort sem um er að ræða þjóðarleiðtoga eða forsvarsmenn Evrópska seðlabankans – er því ljóst að þessi snarpa niðursveifla ætti að valda þeim töluverðum áhyggjum, ekki síst þegar horft er til þess að bandaríska hagkerfið náði að rétta úr kútnum á öðrum fjórðungi þegar vöxtur mældist 0,5%.

______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .