"Reikna má með 3,9% hagvexti í ár og er það viðlíka hagvöxtur og mældist í fyrra. Þetta er nokkuð meiri vöxtur en verið hefur hér á landi að meðaltali síðastliðin tíu ár og spáð er að verði að meðaltai í aðildarríkjum OECD í ár. Líkur eru á því að hagvöxtur aukist frekar á næsta ári og verði 4,3%. Líkt og í ár verður vöxturinn knúinn áfram af vaxandi þjóðarútgjöldum, þ.e. neyslu og fjárfestingu. Áætlað er að hagvöxtur í ríkjum OECD verði 3,3% að meðaltali á næsta ári." Þetta kemur fram í nýju riti Greiningardeildar Íslandsbanka um horfur í þjóðarbúskapnum.

Þar segir ennfremur að aukin verðbólga og viðskiptahalli sé helsti ljóður efnahagsframvindunnar hér á landi um þessar mundir. Verðbólgan er 3,7% og yfir markmiði Seðlabankans og umfram verðbólgu í þeim hagkerfum sem við viljum helst bera okkur saman við. Reikna má með því að verðbólgan verði áfram mikil og yfir verðbólgumarkmiði Seðlabankans út næsta ár. Viðskiptahallinn stefnir í að verða 8,4% af landsframleiðslu í ár og umfram það sem mælist í nokkru öðru OECD ríki. Reikna má með því að viðskiptahallinn aukist enn á næsta ári og fari í tæp 11% af landsframleiðslu. Viðskiptahalli af slíkri stærðargráðu er raunveruleg ógn við stöðugleika hagkerfisins og þarf að fara aftur til áranna rétt eftir seinni heimstyrjöld til að finna viðlíka tölur.

Íslandsbankamenn benda á að verðhækkanir eigna hafi verið meiri við upphaf þessar hagsveiflu en þeirrar síðustu. Verð hlutabréfa hefur hækkað mikið sem og verð skuldabréfa og íbúðarhúsnæðis. Þótt fátt bendi til þess að hér sé um að ræða verðbólu sem þurfi að óttast í efnahagslegu tilliti er ekki hægt að útiloka þann möguleika.

"Á grundvelli vaxandi kaupmáttar, hækkunar gengis krónunnar, hækkunar eignaverðs, lægri vaxta og væntinga um bættan efnahag hefur einkaneysla aukist mikið að undanförnu. Hagvöxtur hefur því að stórum hluta verið keyrður áfram af neyslugleði almennings. Hluta vaxandi einkaneyslu má skýra með auknum lántökum og hefur einkaneysla vaxið hraðar en kaupmáttur. Með auknum lánamöguleikum og lækkandi langtímavöxtum er líkur á því að framhald verði á þessu ferli. Reikna má með því að kaupmáttur aukist um 1,9% í ár en einkaneyslan um 5,5%. Á næsta ári má reikna með 2,6% vexti kaupmáttar en 5,0% vexti einkaneyslu," segir Greiningardeildin.

Horfur til lengri tíma

Útlit er fyrir að yfirstandandi efnahagsuppsveifla verði í sögulegu ljósi hvorki löng né þannig að hagvöxtur verði mjög mikill einstök ár. Mestur verður hagvöxturinn líklegast í kringum 4,5% árið 2006 eða þegar stóriðjuframkvæmdir eru í hámarki. Snöggur samdráttur í fjárfestingum 2007 mun leiða til þess að lítill sem enginn hagvöxtur verður það árið. Á grundvelli vaxandi útflutnings mun hagkerfið að líkindum rétta úr kútnum 2008. Að meðaltali mun hagvöxturinn 2004 til 2008 verða 3,2% eða nokkuð minni verið hefur að meðaltali síðstliðinn tíu ár.

Ógn sú sem hagkerfinu stafar af viðskiptahallanum kann að leiða til talsverðrar lækkunnar á gengi krónunnar á næstu misserum. Ekki er hægt að rekja nema hluta hallans beint til stóriðjuframkvæmda og mun leiðrétting hans líklega krefjast leiðréttingar í gengi krónunnar fyrr en síðar. Ekki er hægt að segja til með vissu um hvenær sú leiðrétting mun eiga sér stað en yfirnæfandi líkur eru á því að það gerist áður en hápunkti stóriðjuframkvæmdanna er náð. Verði sú raunin kann það að skapa talsverða verðbólgu, rýra kaupmátt og skapa harkalegri lendingu hagkerfisins en við reiknum með hér. Hagstjórnarvandi næstu missera felst í því að koma í veg fyrir þetta. Í því sambandi er nauðsynlegt að stærri hluti aðhaldssins verði í höndum hins opinbera en verið hefur að undanförnu.