Matsfyrirtækið Standard & Poor's hefur lækkað horfur á lánshæfiseinkunn Japans úr stöðugum í neikvæðar. Horfum er breytt vegna áhyggja af miklum kostnaði við uppbyggingu eftir jarðskjálftann 11. mars sl.

S&P segir að erfitt verði fyrir japönsk stjórnvöld að leggja fram skýra áætlun um hvernig uppbygging verður fjármögnuð. Talið er að kostnaðurinn sé á bilinu 20.000 milljörðum jena til 50 þúsund milljarða.

Neikvæðar horfur gefa til kynna að lánshæfiseinkunn lækkar ef fjárhagur hins opinbera versnar í Japan, segir S&P. Í frétt Financial Times kemur fram að matsfyrirtækin höfðu þó áhyggjur af lánshæfiseinkunn fyrir jarðskjálftann. Þannig lækkaði S&P einkunn Japans í janúar. Það var fyrsta lækkunin frá því árið 2002 en einkunnin er nú AA-.