Viðskiptaafgangur verður líklega mun minni í ár en í fyrra og á það sinn þátt í ólíkri gengisþróun krónu í ár miðað við á síðasta ári að mati sérfræðinga Íslandsbanka. Afgangur af þjónustujöfnuði var 60 milljarðar króna á öðrum fjórðungi ársins 2017 og er það 5 milljörðum króna minni afgangur en á sama tíma í fyrra.

Í greiningu Íslandsbanka á þróun viðskiptaafgangsins er bent á að skýrist þetta af stórauknum innflutningi ferðatengdrar þjónustu og samdrætti í útfluttri þjónustu að ferðaþjónustu frátalinni. Bent er á að það mælist talsverðum samdráttur á milli ára í liðum á borð við tölvutengda þjónustu, gjöld fyrir notkun hugverka og aðra viðskiptaþjónustu - sem endurspeglar líklega áhrif af of háu raungengi - sem kemur niður á samkeppnishæfni útflutningsfyrirtækja og eykur einnig ferðagleði landsmanna erlendis.

Líkt og Viðskiptablaðið fjallaði um fyrr í dag er stærsti liðurinn í inn- og útfluttri þjónustu á ársfjórðungnum var ferðaþjónustan en af henni var afgangur upp á 34 milljarða. Mestur afgangur var þó af samgöngum og flutningum eða 43 milljarðar. Mestur halli var af annarri viðskiptaþjónustu eða 11,7 milljarðar.

Hægari vöxtur í ferðaþjónustu

Vísað er til þess að á fyrri helmingi ársins 2017 var afgangur af þjónustuviðskiptum 101 milljarður króna sem er aukning um 8 milljarða á milli ára. Þennan vöxt má þakka stórauknum útflutningi ferðatengdrar þjónustu sem minnst er á fyrr í fréttinni.

Þó hafa vísbendingar borist frá ferðaþjónustu sem benda til þess að farið sé að draga úr þeim hraða vexti sem einkennt hefur ferðaþjónustu síðustu misserin. Auk framangreindra talna bárust í gær tölur frá Hagstofunni um gistinætur og gestakomur til og með júlí eins og Viðskiptablaðið hefur áður fjallað um. Hér ber raunar að hafa í huga að tölurnar ná aðeins yfir hluta þeirrar gistingar sem erlendum ferðamönnum stendur til boða. Engu að síður teljum við þær gefa nokkuð glögga mynd af þróun innan ferðaþjónustu, enda ríma þær ágætlega við þjónustujafnaðartölurnar.

Horfur á minni viðskiptaafgangi

Íslandsbanki gerir því ráð fyrir minni viðskiptaafgangi á þessu ár. Vísað er til þess að nokkuð hefur dregið úr afgangi af vöru- og þjónustuviðskiptum á milli ára og á það að öllum líkindum þátt í ólíkri þróun krónu á tímabilunum tveimur. Í hagspá bankans var gert ráð fyrir því að viðskiptaafgangur muni nema 125 milljörðum króna á þessu ári og eru tölurnar í grófum dráttum í samræmi við þá spá „En þó gæti afgangurinn orðið eitthvað minni þegar uppi er staðið,“ segir í greiningunni.