Horfur um losun fjármagnshafta eru góðar, að því er segir í greinargerð fjármálaráðherra um losun hafta. Spáð er áframhaldandi hagvexti, afgangi af viðskiptum við útlönd og stöðugu verðlagi, þrátt fyrir þenslumerki.

Þar segir jafnframt að opinber fjármál séu sjálfbær á ný og skuldir teknar að lækka. Í janúar hækkaði Standard & Poor‘s lánshæfismat sitt á ríkissjóði fyrir langtímaskuldbindingar úr BBB í BBB+ og Fitch staðfesti sömuleiðis BBB+ mat sitt. Horfur eru stöðugar að mati beggja aðila.

Í greinargerðinni, sem er sú sjötta frá árinu 2013, segir einnig að miðað sé við að tekjum af stöðugleikaframlögum verði í fyrsta lagi varið til að mæta lækkun tekna af sérstökum skatti á fjármálafyrirtæki. Í öðru lagi verði þeim varið til uppgreiðslu skuldabréfs sem ríkissjóður gaf út til endurfjármögnunar Seðlabanka Íslands, enda komi slík ráðstöfun í veg fyrir aukningu á virku peningamagni í umferð með þeim neikvæðu áhrifum sem slíkt gæti haft á verðlag og gengisþróun. Bréfið stóð í 90 milljörðum króna í árslok 2015. Þann 1. mars var fyrsta hluta stöðugleikaframlagsins ráðstafað inn á bréfið, alls 25 milljörðum króna.

Varðandi aflandskrónuútboð segir í greinargerðinni að vinna við undirbúning þess hafi dregist nokkuð en að áætlunin sé óbreytt hvað þetta varðar. Undirbúningur þessa hluta aðgerðaráætlunarinar fari fram í Seðlabanka Íslands og fjármála- og efnahagsráðuneytinu.