Verðbólga í júlí mældist 1,9% og er þar með enn undir 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans, líkt og hún hefur verið samfleytt í hálft annað ár. Horfur eru hins vegar á vaxandi verðbólgu eftir því sem líður á árið, og líklega fer hún yfir verðbólgumarkmið Seðlabankans strax í haust. Þetta segir Greining Íslandsbanka í nýrri umfjöllun á vef bankans.

Þar kemur fram að horfur séu á stíganda í árstakti verðbólgunnar á næstu mánuðum. Útlit sé fyrir að hún fari yfir verðbólgumarkmið Seðlabankans í september og hefur greiningardeildin hækkað bráðabirgðaspá sína fyrir ágústmánuð og reiknar nú með 0,6% hækkun í stað 0,5% líkt og hún gerði áður ráð fyrir.

„Þessa breytingu á spá okkar má einna helst rekja til 11,2% hækkunar á viðhaldsþjónustu á húsnæði (+0,08% í VNV), sem kemur í kjölfar nýgerðra kjarasamninga iðnaðarmanna og verkafólks í byggingariðnaði. Annars munu útsölulok á fötum og skóm (+0,29%) vega talsvert þungt til hækkunar VNV í ágúst að vanda, en auk þess gerum við ráð fyrir talsverðri hækkun á matvörulið VNV (+0,13%) þar sem verðhækkun á mjólk og mjólkurafurðum (+0,09%) spilar stóra rullu. Samkvæmt þessari spá, sem er til bráðabirgða, mun árstaktur verðbólgu aukast töluvert í ágúst, eða fara úr 1,9% nú í júlí í 2,2% í ágúst,“ segir í umfjöllun greiningardeildarinnar.

Greining Íslandsbanka gerir svo ráð fyrir 0,2% hækkun vísitölu neysluverðs bæði í september og október. Samkvæmt spánni verður tólf mánaða taktur vísitölunnar kominn í 2,6% strax í september og þar með kominn upp fyrir verðbólgumarkmið Seðlabankans. Telur greiningardeildin að verðbólgan fari yfir 3% í lok árs og að á næsta ári verði hún að jafnaði talsvert yfir verðbólgumarkmiðinu.

Umfjöllunina má lesa í heild sinni hér.