Horn fjárfestingarfélag, dótturfélag Landsbankans, hagnaðist um 6,5 milljarða króna á síðasta ári, samkvæmt ársreikningi félagsins sem er birtur á heimasíðu Horns. Arðsemi eigin fjár var 22% og heildareignir í árslok námu 35,0 milljörðum. Eiginfjárhlutfall var 92,4% í árslok.

Á síðasta ári tók félagið yfir 44% hlut í Atorku Group, 29,6% í Reitum fasteignafélagi og 21,9% í Romag PLC. Horn seldi 6,8% hlut í Marel, 2,0% í Intrum Justitia, 4,2% í Vinnslustöðinni og 5,4% í Median, samkvæmt ársreikningi félagsins.

Laun Hermanns Más Þórissonar, framkvæmdastjóra félagsins, voru um 15,3 milljónir króna á síðasta ári. Stjórnendum fækkaði um 2 frá fyrra ári en þeir Ívar Guðjónsson og Smári Rúnar Þorvaldsson létu af störfum.