Framtakssjóðurinn Horn III slhf. sem er í rekstri Landsbréfa hf. hefur keypt 80% hlut í Basko ehf. sem fer með eignarhald á Tíu Ellefu ehf., Ísland-Verslun hf. og Imtex ehf.

Fyrirtækið Basko hf. rekur meðal annars 35 vöruverslanir ásamt fjórum kaffihúsum undir merkjum Dunkin Donuts ásamt hamborgarastaðnum Bad Boys.

Afhending hlutafjársins hefur nú þegar farið fram en kaupverðið er trúnaðarmál. Kemur einnig fram í frétt á vef Landsbréfa að Árni Pétur Jónsson verði áfram forstjóri Basko ehf.

Mikil tækifæri á þessum markaði

Basko er fyrsta fjárfesting Horns III og telja framkvæmdarstjórar framtakssjóðsins mikil tækifæri vera falin á þessum markaði.

Árni Pétur Jónsson forstjóri og næst stærsti hluthafi félagsins Basko ehf. telur það færa félaginu aukinn kraft og að áhugi Horns III sé viðurkenning á því góða starfi sem starfsmenn Basko hafa unnið.