Framtakssjóðurinn Horn III, sem er í rekstri Landsbréfa, hefur keypt 50% hlut í Líflandi. Þórir Haraldsson, framkvæmdastjóri Líflands, er eigandi helmingshlutar í félaginu á móti Horni. Seljandi er Sólveig Pétursdóttir og fjölskylda. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Landsbréfum .

Lífland framleiðir fóður og selur rekstrarvörur til landbúnaðar, malar og selur Kornax hveiti og aðrar tengdar vörur og rekur einnig sex sérverslanir fyrir hestamenn og bændur víðsvegar um landið. Hjá Líflandi starfa alls 80 manns. Fyrirtækið á rætur sínar að rekja til ársins 1917 þegar Mjólkurfélag Reykjavíkur var stofnað af bændum með það að markmiði að sjá um móttöku og dreifingu mjólkur til Reykvíkinga.

Horn III er 12 milljarða króna framtakssjóður með 30 hluthafa sem eru meðal annars lífeyrissjóðir, fjármálafyrirtæki og fagfjárfestar. Kaupin á Líflandi eru þriðju kaup sjóðsins. Fyrir á Framtakssjóðurinn 80% hlut í Basko ehf. ásamt 100% eignarhlut í Hagvögnum, Hópbílum og Hvaleyri hf.