Horn III hefur fest kaup á félögunum Hagvögnum, Hópbílum og Hvaleyri. Seljendur eru hjónin Gísli J. Friðjónsson og Hafdís Alexandersdóttir og kaupverðir er trúnaðarmál. Gísli sem er forstjóri félaganna þriggja, kemur þó til með að verða innanhandar næstu tvö árin, fyrst sem forstjóri og síðar sem ráðgjafi. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Landsbréfum.

Horn III er framtakssjóður á vegum Landsbréfa Hluthafar eru rúmlega 30 talsins og samanstanda af lífeyrissjóðum, fjármálafyrirtækjum og öðrum fagfjárfestum.

„Hagvagnar reka strætisvagna á höfuðborgarsvæðinu með langtímasamningum við Strætó bs. og er félagið einn stærsti undirverktaki Strætó bs. á höfuðborgarsvæðinu.

Hópbílar eru einn stærsti undirverktaki Strætó bs. úti á landi og stærsti undirverktakinn þegar kemur að ferðaþjónustu fatlaðra. Hópbílar eru einnig í almennri útleigu hópferðabifreiða og ferðaþjónustu. Ferðaþjónustan og þjónustan við fatlaða hefur verið í miklum vexti.

Hvaleyri er fasteignafélag utan um fasteignir sem nýttar eru í rekstri Hópbíla og Hagvagna m.a í Hafnarfirði en einnig á félagið lóð á góðum stað í Kópavogi.

Rekstur félaganna hefur gengið vel á undanförnum árum. Þau reka einn stærsta flota hópferðabifreiða á landinu og stór hluti af tekjum félaganna eru samningsbundnar til langs tíma. Félögin hafa alla burði til að efla rekstur sinn enn frekar á sviði ferðaþjónustu og njóta þar góðs af nýlegum bílaflota, auk gæða- og umhverfisvottana. Velta félaganna á síðasta ári nam um 3,2 milljörðum króna,“ segir í tilkynningu Landsbréfa.

Akrar Consult og Pacta lögmenn voru ráðgjafar kaupenda.