Horn, fjárfestingarfélag í eigu Landsbankans, hyggst á næstunni taka yfir plastframleiðandann Promens. Skrifað hefur verið undir samkomulag þess efnis við Atorku, sem á 74% hlutafjár Promens en fyrir á Horn 12% hlutafjár í félaginu. DV greinir frá þessu í dag og vísar til fundargerðar stjórnar Horns frá því í lok síðasta mánaðar. Greiðsla fer fram í formi hlutafjár í Atorku en við nauðasamninga Atorku í árslok 2009 féllust Landsbanki og Íslandsbanki á að breyta krötum sínum á hendur félaginu í hlutafé. Kaupin eru háð samþykki Samkeppniseftirlits og lánardrottna Promens.

Ragnhildur Geirsdóttir mun samkvæmt frétt DV láta af starfi forstjóra Promens en því hefur hún gegnt frá árinu 2006. Óskað hefur verið eftir því við Jakob Sigurðsson, fyrrverandi landsliðsmann í handbolta og forstjór SÍF og núverandi aðstoðarforstjóra deCode að hann taki við starfinu. Hann mun þó hafa beðið um umþóttunartíma. Þá má ætla að Hermann Már Þórisson, framkvæmdastjóri Horns, taki við formennsku í stjórn Promens af Steinþóri Ólafssyni, fyrrverandi forstjóra Sæplasts.

Promens varð til þegar Atorka hóf að stækka dalvíska fyrirtækið Sæplast um miðjan síðasta áratug og rekur fyrirtækið nú 47 starfstöðvar um allan heim. Hjá því starfa um 4 þúsund manns. Eignir félagsins voru metnar á um 20 milljarða króna í árslok 2009.

Eins og fram kom á vb.is 25. október 2009 var félagið talið verðlaust ári áður. Þá kom það fram þremur dögum fyrr að fjárþörf félagsins væri metin á um 15-20 milljónir evra og að hagrætt hafi verið í rekstrinum þannig að 1200 manns var sagt upp á tveimur árum.