RWC Asset Management LLP, einn hornsteinsfjárfesta Íslandsbanka, hefur selt tæpar 2 milljónir hluta í bankanum, en markaðsvirði seldra hluta nemur ríflega 200 milljónum króna miðað við gengi bréfanna við lokun markaða í dag. Þetta sýnir uppfærður hluthafalisti bankans.

Hlutdeild RWC í bankanum var um 1,5% við úthlutun eftir útboð sem fór fram fyrir um mánuði síðan en hlutdeild félagsins er nú um 1,45%, og er markaðsvirði hlutanna ríflega 3,1 milljarður króna. Hlutdeild félagsins í bankanum hafði verið óbreytt frá úthlutun þegar Viðskiptablaðið skoðaði hluthafalistann þann 28. júní.

Þá hafa Íslandssjóðir selt ríflega 600 þúsund hluti, að markaðsvirði um 70 milljóna króna, frá 28. júní og lækkar hlutdeild sjóðastýringarfélagsins úr 1,11% í 1,08%. Markaðsvirði hlutarins nemur nú um 2,3 milljörðum króna.

Gildi aukið hlutdeild verulega

Lífeyrissjóðurinn Gildi hefur aftur á móti aukið hlutdeild sína verulega frá úthlutun, eða tæplega 25 milljónum hluta að andvirði um 2,7 milljarða króna miðað við núverandi gengi. Hlutdeild lífeyrissjóðsins í bankanum er nú um 3,55%, samanborið við 2,3% við úthlutun, og nemur hluturinn um 7,7 milljörðum króna.

Þá hefur Lífeyrissjóður Verzlunarmanna aukið við sig um ríflega 8 milljónir hluta frá úthlutun sem eru að markaðsvirði ríflega 900 milljónir króna. Hefur hlutdeild lífeyrissjóðsins aukist úr 2,3% í 2,73% og nemur um 5,9 milljörðum króna að markaðsvirði.

Þann 28. júní síðastliðinn var hlutdeild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins 1,65% en síðan þá hefur sjóðurinn bætt við sig um 2,4 milljónum hluta, að markaðsvirði ríflega 260 milljóna króna, og er hlutdeild sjóðsins í bankanum nú um 1,77% eða um 3,8 milljarðar að markaðsvirði.

Þá hefur Arion banki komið inn í hluthafahóp Íslandsbanka og heldur, samkvæmt uppfærðum lista, á um 1,42% hlut í bankanum, að markaðsvirði ríflega 3 milljarða króna.