Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir Landsvirkjun geti vel haldið áfram að byggja upp virkjanir. Þó þurfi að sníða stakk eftir vexti. Auk þess sem ekki liggi fyrir að hálfu stjórnvalda hvar má virkja og hvar ekki. Sú staða þurfi að skýrast.

Sp. blm. Landsvirkjun er í dag stærsta fyrirtæki landsins þegar horft er til eiginfjárstöðu, með rúmlega 180 milljarða króna eigið fé í lok síðasta árs. Hefur fyrirtækið ekki svigrúm til þess að ráðast í framkvæmdir á næstu misserum eða eru væntingar um það óraunhæfar?

"Staðan hjá okkur hvað varðar framkvæmdir ræðst af því hvaða framkvæmdir við megum ráðast í. Það liggur ekki fyrir eins og staða mála er í dag, a.m.k. ekki að öllu leyti. Því fyrr sem sú staða skýrist því betra. Stjórnvöld ráða för hvað þau mál snertir. Við getum haldið áfram að byggja upp þó um sé að ræða minni virkjanakosti en síðustu árin. Það væri ekki raunhæfur möguleiki að fara út í byggingu Kárahnjúkavirkjunar miðað við þær aðstæður sem eru á mörkuðum núna. En bygging Búðarhálsvirkjunar og virkjana á Norðausturlandi er vel raunhæfur möguleiki og þau verkefni henta okkur vel. Til skamms tíma litið skil ég vel að margir hafi væntingar til Landsvirkjunar og ég tel fyrirtækið vel geta staðið undir þeim. Til lengri tíma held ég hins vegar að Landsvirkjun getið orðið enn mikilvægari og er sannfærður um að mikil tækifæri séu fyrir hendi."