„Til að bregðast við breyttum aðstæðum á mörkuðum hefur þegar verið gripið til umfangsmikilla aðgerða til að lækka rekstrarkostnað félagsins,“ segir Hörður Arnarson, forstjóri Marel í uppgjörstilkynningu frá félaginu.

Þannig hafi starfsfólki hjá fyrirtækjum Marel erlendis fækkað um 300 í lok árs og er kostnaður vegna þess gjaldfærður á fjórða ársfjórðungi.

Hann tekur fram að próforma rekstrarhagnaður (EBIT) af kjarnastarfsemi félagsins hafi verið 8,5% af veltu á árinu 2008 en áætlanir höfðu gert ráð fyrir að hann yrði 9%. Frávikið hafi allt myndast á fjórða ársfjórðungi og megi rekja til áhrifa alþjóðlegu fjármálakreppunnar á sölustarfsemi félagsins.

„Erfiðar aðstæður á fjármálamörkuðum hafa haft áhrif á fjárfestingar viðskiptavina okkar og hafa einkum valdið frestun á fjárfestingum í nýjar verksmiðjur,“ segir Hörður.

„Við njótum hins vegar góðs af því að sífellt stærri hluti veltu okkar byggist á sölu varahluta og þjónustu sem ekki hefur dregist saman. Matvælaiðnaðurinn hefur ávallt lagað sig hratt að breyttum aðstæðum. Mat okkar á sterkum undirliggjandi vexti í iðnaðargreininni er óbreytt.“