Hörður Arnarson verkfræðingur og fyrrverandi forstjóri Marels býður sig nú fram á A-lista í aðalstjórn Byrs gegn sitjandi stjórn sem býður fram B- lista. Hann segir erfitt að meta stöðuna vegna stjórnarkjörs á aðalfundi Byrs sem fram fer síðar í dag. Framboðið gegn núverandi stjórnendum hafi þó fengið góðan hljómgrunn.

„Það eru mjög margir sem eru sammála þeim málstað sem þetta framboð stendur fyrir. Það verður svo bara að koma í ljós hvernig menn kjósa."

Hann telur að sala Landsbankans á stofnfjárbréfum upp á 2,6% hlut í BYR á dögunum sem síðan gekk til baka muni ekki hafa áhrif á niðurstöðuna.

„Það snertir okkur ekkert en þarna var Landsbankinn að reyna að gæta sinna hagsmuna. Ég hugsa þó að þessi 2,6% hefðu lent okkar megin ef þau hefðu orðið virk."

Umræddur stofnfjárhlutur var partur af 7,5% hlut félagsins Imons sem var í eigu athafnamannsins Magnúsar Ármanns, en var tekinn yfir af gamla Landsbankanum vegna skulda. Þar með varð Landsbankinn stærsti hluthafi Byrs, en bréfin hafa frá bankahruninu verið í umsjón skilanefndar bankans.

Var Lárus Finnbogason formaður nefndarinnar, sagður hafa haft milligöngu um söluna sem nefndin síðan ógilti. Hann er jafnframt endurskoðandi eignarhaldsfélagsins Reykjavík Invest sem hugðist kaupa stofnfjárbréfin af Landsbankanum. Það félag er í eigu Arnars Bjarnasonar sem hefur boðið sig fram til stjórnarsetu í Byr gegn lista sitjandi stjórnar.

Hluti af gagnrýninni tengist fyrri ákvörðunum um háar arðgreiðslur úr sjóðnum og hugsanlegu framhaldi á þeim. Hörður Arnarson telur það þó ekki að vega þyngst í umræðunni nú.

„Ég held að þetta snúist frekar um að ákveðin grasrót í stofnfjáreigendahópnum sem vill fá nýja stjórn að og klippa á tengslin við gömlu stjórnina. Þetta er ákveðin tilraun grasrótar í svona félagi sem út frá sinni réttlætiskennd að koma sínum sjónarmiðum á framfæri. Þau ná í okkur þrjú þarna fyrir utan sem fagstjórnendur og biðja okkur að leggja sér lið ef þau ná kjöri."

Hörður, sem er sjálfur doktor í rafmagnsverkfræði, á þar við Ingunni Guðmundsóttur rekstrarhagfræðing og rekstrastjóra hjá Icelandair Cargo til margra ára og Svanhildi Nönnu Vigfúsdóttur sem er stjórnarmaður í Skeljungi hf. og löggiltur verðbréfamiðlari. Þar að auki eru á listanum Sveinn Margeirsson og Arnar Bjarnason. Í framboði í varastjórn A-lita eru svo Stefán D. Franklín og Eggert Þór Aðalsteinsson.

Ekki náðist í fulltrúa sitjandi stjórnar eða af B-lista til stjórnarkjörs, en Ragnar Zophonías Guðjónsson sparisjóðsstjóri Byrs er sagður taka allar fyrirspurnir, en hann sat á fundi.