Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir fjárhagsstöðu Landsvirkjunar vera ágæta. Þó sé ekki hægt að horfa framhjá því að félagið sé skuldsett eftir nær samfellt 15 ára framkvæmdatímabil.

Sp. blm. Hvernig er fjárhagsstaða Landsvirkjunar núna tveimur árum eftir fjármögnunarmarkaðir nær lokuðust fyrir fyrirtækið?

"Landsvirkjun er í ágætri stöðu. Það er þó ekki hægt að horfa fram hjá því að fyrirtækið er skuldsett eftir nær samfellt 15 ára framkvæmdatímabil. Rafmagnsframleiðslan hefur verið þrefölduð á ársgrundvelli á því tímabili. Farið úr rúmum fjórum terawattstundum í 12 til 13 terawattstundir á ári. Þessari uppbyggingu hafa fylgt miklar stofnfjárfestingar og lántökur. Fyrirtækið stendur hins vegar vel undir þessari skuldsetningu og hefur haldið sínu striki þrátt fyrir þær hamfarir sem riðu yfir markaði heimsins 2007 og 2008. Það hafa engir samningar við banka komist í uppnám og vextir á lánum hafa ekki breyst. Fyrirtækið hefur haldið styrk sínum í gegnum þessa erfiðleika og það segir mikið um hversu sterkar stoðir rekstrarins eru. Eftir hrunið 2008 var brugðist við með margvíslegum hætti með aðhaldi í rekstri og dregið var úr fjárfestingum, til þess að mæta þeim nýja veruleika sem í raun heimurinn allur stóð frammi fyrir. Eftirspurn í hagkerfum heimsins féll saman á örskotsstundu á sama tíma og íslenska bankakerfið hrundi til grunna og krónan féll. Þetta hafði vitaskuld áhrif á fyrirtækið með margvíslegum hætti, en þó ekki þannig að reksturinn kæmist í uppnám. Þvert á móti stóð hann þessar fordæmalausu hremmingar af sér. Undanfarna mánuði hefur náðst mikill árangur í því að efla trú erlendis á fyrirtækinu. Þar eru það öðru fremur rekstrartölurnar okkar sem hafa sannfært lánshæfismatsfyrirtæki og aðra fjárfesta um að fyrirtækið stendur vel. Fyrirtækið er að mestu komið í gegnum þá óvissu sem blasti við þegar hrunið varð. Þá voru um 800 milljónir (um 90 milljarðar króna) dollara á gjalddaga fram til loka árs 2012. Þetta olli áhyggjum hjá lánastofnunum og greinendum. Það sem blasir við núna, miðað við hálfsársuppgjör þessa árs, er að með rekstrarfé einu saman er stór hluti vandamáls leystur. Eftir allan rekstrarkostnað og fjárfestingar standa eftir 85 milljónir dollara (um 10 milljarðar króna) á fyrstu sex mánuðum ársins. Ef við getum búið til 150 til 200 milljónir dollara á hverju ári, 2010, 2011 og 2012, þá náum við að fjármagna þetta að verulegum hluta með fé frá rekstri. Það sem upp á vantar af erlendu fjármagni kemur síðan í gegnum Deutsche Bank, eins og tilkynnt hefur verið um. Sú skuldabréfaútgáfa var fyrst og fremst til þess að taka af allan vafa um aðgengi endurfjármögnunar í erlendri mynt og honum hefur nú verið eytt. Þessi endurfjármögnun er því öll tryggð og það er helsta skýring þess að lánshæfismat okkar hækkaði um einn flokk síðast. Sem er jákvætt og mikilvægt skref fyrir fyrirtækið."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .