Hinir sterku verða enn sterkari þegar við siglum úr þessum öldudal efnahagshremminga.

Þetta sagði Hörður Arnarson, forstjóri Marel Food Systems, á afkomufundi félagsins í morgun, sem fram fór á ensku.

Hörður sagði að vandamálin í íslensku efnahagslífi hefðu minniháttar áhrif á Marel því félagið væri alþjóðlegt: Minna en 1% tekna séu í íslenskum krónum og um 5% útgjalda.

Þar af leiðandi auki veiking krónu hagnaði Marel Food Systems. Hann bendir þó á að það verði ekki strax vegna gengisvarða samninga.

Hann sagði erfiðara að segja til um hvaða áhrif hin alþjóðlega fjármálakreppa hefði á fyrirtækið.

Hörður sagði að verkefnastaða fyrirtækisins væri góð en benti á að hægt hafi á pöntunum.

Hann sagði að fjármögnun fyrir viðskiptavini væri erfiðari en áður var og tæki lengri tíma.

Marel framleiðir hátæknibúnað fyrir matvælaiðnað. Hann sagði að langtímahorfur fyrir geirann væru góðar.  Þrátt fyrir efnahagslægð, þyrfti fólk að borða en að neyslumynstrið breytist. Í því felast tækifæri fyrir Marel. Matvælafyrirtæki þurfa að fjárfesta í tækjum til að mæta breyttum þörfum fólks.