Hörður Felix Harðarson, hæstaréttarlögmaður, hefur verið ráðinn  framkvæmdastjóri lögfræði og regluvörslusviðs Glitnis en hann tekur við starfinu af Einari Páli Tamimi, sem hefur óskað eftir að láta af störfum hjá bankanum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Glitni.

Einar Páll Tamimi hefur starfað hjá Glitni frá árinu 2004 og starfað náið með stjórnendum bankans að vexti hans á alþjóðlegum mörkuðum. Hann mun áfram verða tengdur Glitni og sinna lögfræði- og ráðgjafaverkefnum fyrir bankann.   Hörður Felix er einn eigenda lögmannsstofunnar Lögmenn Mörkinni þar sem hann hóf störf árið 1995.  Hann lauk embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 1995 og meistaraprófi í Evrópurétti (LLM) frá Háskólanum í Exeter í Bretlandi árið 2001. Hörður Felix hefur sérhæft sig á sviði samkeppnisréttar, fyrirtækjaréttar og stjórnsýsluréttar auk þess að sinna verkefnum á fjölmörgum öðrum réttarsviðum. Hörður Felix er jafnframt stundakennari og prófdómari við lagadeild Háskóla Íslands.

Hörður Felix er kvæntur Guðrúnu Valdimarsdóttur og eiga þau þrjú börn.