Hörður Helgason hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri SPRON korta. SPRON kort er sérstök rekstrareining innan SPRON og hefur umsjón með kortaútgáfu, markaðssetningu og vöruþróun á sviði kortamála að því er kemur fram í fréttatilkynningu.

Hörður hefur veitt Verslunarsviði Kreditkorta hf. forstöðu frá árinu 2000 en var áður framkvæmdastjóri Korts hf., framkvæmdastjóri Baugs hf. (nú Aðföng) og framkvæmdastjóri Bensínorkunnar hf. Hann var jafnframt aðstoðarforstjóri og framkvæmdastjóri markaðssviðs Olís um árabil.

Hörður útskrifaðist sem viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands árið 1983. Eiginkona Harðar er Dóróthea Jóhannsdóttir hagfræðingur og eiga þau þrjár dætur; Hjördísi, Helgu og Steinunni.