Tafsamt hefur reynst að hefja hörvinnslu við fyrirtækið Feygingu ehf. í Þorlákshöfn að því er kom frem í frétt svæðisútvarps RUV í gær. Fyrirtækið hefur átt í miklum vandræðum við að þróa og hanna þurrkkerfi sem nota á við vinnslu á líni til sölu á erlendan markað. Kostnaður vegna þessa hefur verið miklu meiri en menn bjuggust við og nú hefur fyrirtækið óskað eftir að hlutafé verði aukið.

Meðal hluthafa í fyrirtækinu eru Orkuveita Reykjavíkur, Byggðastofnun, Burðarás, Iðntæknistofnun, Sveitarfélagið Ölfus og fleiri og hafa þessir fjárfestar lagt hundruð miljóna króna í fyrirtækið.

Ólafur Áki Ragnarsson, bæjarstjóri í Ölfusi, sagði í samtali við RUV að ákvörðun um aukið hlutafjárframlag sveitarfélagsins verði tekin á bæjarstjórnarfundi eftir viku. Óskað er eftir að bæjarfélagið leggi fram 11 miljónir til viðbótar þeim rúmlega 20 m.kr. sem áður hafa verið settar í fyrirtækið. Eignarhlutur Ölfusinga er um 18%.

Í frétt RUV kom fram að upphaflega átti framleiðsla á líni að hefjast fyrir ári síðan en þrátt fyrir mikla seinkun og vandkvæði kveðst Ólafur bjartsýnn á að vel til takist og þegar framleiðsla hefjist fái um 13 til 15 manns atvinnu við hana.

Fjöldi sunnlenskra bænda hefur ræktað hör fyrir Feygingu en hörinn safnast nú upp í stórum rúllum eftir tvær uppskerur. Vinnslan á hráefninu fer þannig fram að línið er feigt með því að leggja það í bleyti, skolað og þurrkað og stöngulhýðið hreinsað af hörnum í þar til gerðum búnaði sem reynst hefur erfitt að þróa til fulls. Líntrefjarnar eru seldar sem hráefni í textílframleiðslu sem þarf meðal annars í fatnað, dúka og áklæði segir í frétt RUV.

Byggt á frétt í svæðisútvarpi RUV.