Fyrrverandi bankastjóri Arion banka, Höskuldur H. Ólafsson, fékk 150 milljónir króna við starfslok sín hjá bankanum. Þetta kemur fram í uppgjöri bankans fyrir annan ársfjórðung þessa árs en mbl.is greindi fyrst frá.

Þann 1. júlí síðastliðinn tók Benedikt Gíslason við starfi forstjóra bankans en Höskuldur sagði starfi sínu lausu um miðjan apríl síðastliðinn.

Greint var frá því í gær að hagnaður Arion banka á öðrum ársfjórðungi þessa árs hafi numið 2,1 milljarði króna sem er milljarði minna en á sama tímabili fyrir ári. Ariðsemi eigin fjár nam 4,3% en var 5,9% fyrir ári. Benedikt Gíslason, nýr bankastjóri Arion banka, sagði afkomuna ekki vera nógu góða en heildareignir námu 1.233 milljörðum króna í lok júní 2019 samanborið við 1.164 milljarða króna í árslok 2018 og eigið fé nam 195 milljörðum króna, samanborið við 201 milljarð króna í árslok 2018.