Stjórn Arion banka hefur ráðið Höskuld H. Ólafsson í starf bankastjóra Arion banka og mun hann taka til starfa eigi síðar en 1. júní næstkomandi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Arion Banka en Höskuldur var valinn úr hópi 40 umsækjenda sem sóttu um stöðuna þegar Arion banki auglýsti eftir bankastjóra í desember sl.

Höskuldur hefur verið forstjóri Valitor – Visa Ísland síðastliðin fjögur ár en þar áður gegndi hann margvíslegum stjórnunarstörfum hjá Eimskip í 17 ár, hér á landi og erlendis.

„Ég hlakka til að takast á við þau krefjandi verkefni sem bíða mín sem bankastjóra Arion banka. Við erum á afar mikilvægu uppbyggingarskeiði í íslensku samfélagi og sú uppbygging felur í sér fjölmörg tækifæri,“ segir Höskuldur í tilkynningunni.

„Mitt fyrsta verk verður að kynnast nýju samstarfsfólki og setja mig inn í þau verkefni sem fyrir liggja. Ég mun síðan vinna að áframhaldandi þróun á framtíðarsýn og markmiðum Arion banka í góðri samvinnu við stjórn og starfsfólk bankans.“

Höskuldur er viðskiptafræðingur að mennt. Hann er kvæntur Sigríði Ólafsdóttur og eiga þau þrjú börn.